151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[16:51]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég er ánægður með að bætt skuli við í þróunarsamvinnu. Ég hef hins vegar stöðugt haldið því fram síðan ég kom hingað að við ættum að reyna að ná 0,7% og meðan við höfum ekki náð því þá gagnrýni ég það að við stígum ekki nógu stór skref. Hæstv. ráðherra sagði að ef öll lönd væru eins og Ísland væru engin loftslagsvandræði. En ef allar þjóðir neyttu og gengju um eins og Íslendingar þyrfti 5,6 jarðir. Þó að við höfum forskot á ýmsum sviðum, og höfum haft hugvit til að nýta jarðvarmann okkar, breytir það því ekki að við þurfum að vega upp á móti umgengni okkar hér innan lands. Mér finnst dapurt ef ráðherra stendur í þeirri meiningu, þrátt fyrir að honum sé sagt það á erlendum fundum, að við séum jafnvel að gera meira en við þurfum og að allir líti til okkar. Mér finnst það ekki mikill metnaður og ég veit fyrir víst að félagar hans í ríkisstjórn, í hinum flokkunum a.m.k., deila ekki þeirri sýn.

Megnið af fjármálaáætluninni fjallar um varnarmál og hagsmunagæslu í tengslum við Bandaríkin. Ég fann ESB bara einu sinni, en það er að vísu fjallað um EES-samninginn. Mig langar að spyrja ráðherra að víðu hagsmunamati, hvort hann telji að brýnustu viðfangsefni framtíðar lúti að varnaruppbyggingu í samvinnu við NATO og Bandaríkin en minna í tengslum við metnaðarfullar loftslagsáætlanir ESB sem verða samþykktar síðar í dag.