151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[16:56]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það sem kerfið gerir er raunverulegt hlutverk kerfisins. Það sem gert er sýnir raunverulegu stefnuna. Það er óhætt að segja að mikið hafi mætt á utanríkisráðuneytinu að undanförnu enda miklar sviptingar á alþjóðavettvangi og á tímabili mikil þörf á að koma fólki heim. En þegar litið er til framtíðar er eðlilegt að gera ráð fyrir því að verkefni ráðuneytisins verði hefðbundnari á ný og fjalli m.a. um styrkingu á stöðu Íslands á alþjóðavettvangi og í alþjóðaviðskiptum og styrkingu heimsbyggðarinnar í gegnum þróunarsamvinnu. Það síðara virðist vera í ágætisfarvegi ef við horfum algerlega fram hjá skuldbindingum okkar í þeim efnum. En ég má til með að spyrja um hagsmunagæsluna.

Þegar maður lítur yfir markmiðin og mælikvarðana á málefnasviði er áhugavert að sjá hvar er gefið í og hvar er ekki gefið í. Samdráttur yfir tímabilið í utanríkismálum er m.a. útskýrður með tilvísun í reiknireglu stofnana og það er varla mikil sókn. Mikil áhersla er á öryggis- og varnarmálin en það virðist aðallega ganga út á að sinna viðhaldi sem ætti hvort eð er að sinna. Ég skil ekki alveg hvernig þetta getur talist fimm ára áætlun. En það sem meira er, ég skil ekki alveg hvar sóknin er. Hvers vegna erum við að spila varnarleik í utanríkismálum næsta hálfa áratuginn? Hvar er útvíkkun t.d. á sendiráðum Íslands? Hvar eru áætlanir um að gera meira í gegnum alþjóðastofnanir en það sem við höfum skuldbundið okkur til nú þegar? Hvar eru markmiðin um aukið samstarf í loftslagsmálum og friðarmálum? Hvar er samstarf við fleiri alþjóðastofnanir? Bara í alvöru: Hvar er metnaðurinn? Ekki síst, miðað við ummæli hæstv. utanríkisráðherra frá 2017 um að áhugaverðir tímar séu fram undan í Bretlandi vegna Brexit og mikil tækifæri í samskiptum okkar við Breta, spyr ég að lokum: Hvar er öll þau tækifæri?