151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[17:01]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það er svo sem ekkert nýtt að hæstv. utanríkisráðherra svari ekki spurningum sem til hans er beint og kannski er ekki von til þess að það breytist. Þetta snýst ekki bara um peningana, þetta snýst um hversu vel þeir eru notaðir. Þetta snýst um markmiðin sem koma fram og það koma ekkert rosalega merkileg markmið fram. Dýpstu kreppunni þarf að svara með metnaðarfyllstu stefnunni. Ekki brotthvarfi, ekki uppgjöf. Það hafa verið málefnalegar spurningar í allan dag til ýmissa hæstv. ráðherra og málefnaleg svör að jafnaði. En þetta er í fyrsta sinn í dag sem ég sé þingmenn úr mörgum ólíkum flokkum, Miðflokknum, Samfylkingunni, Pírötum og ég á von á fleirum, koma fram og sammælast um að metnaðarleysi sé í málaflokki. Höfum það alveg á hreinu. Utanríkismál líta út fyrir að skipta engu máli fyrir þessa ríkisstjórn (Gripið fram í: Heyr, heyr.) þegar horft er til frumkvæðisins og til niðurstaðna. Ég hef ekki frekari spurningar fyrir hæstv. ráðherra, hann myndi líklega hvort eð er ekki svara þeim, nema bara með útúrsnúningum og rugli en aldrei utanríkispólitík.