151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[17:07]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir það sem hún hafði fram að færa. Hv. þingmaður tekur upp hluti sem ég held að við getum verið mjög sátt við. Og það er ekki út af því að við séum að berja okkur sjálfum á brjóst heldur erum við t.d. að lesa það sem sagt hefur verið um framgang okkar í mannréttindaráðinu. Ekki er langt síðan lærð grein kom frá fyrrverandi utanríkisráðherra Kosta Ríka, að mig minnir, þar sem hann sagði að önnur Norðurlönd þyrftu að gera eins og Ísland þegar kæmi að setu þeirra í mannréttindaráðinu.

Ég er svo sannarlega sammála hv. þingmanni þegar hún talar um norrænt samstarf. Við megum líka vera mjög sátt við það að eftir Thorvald Stoltenberg sé það okkar maður, Björn Bjarnason, sem skrifar næstu skýrslu. Mér er til efs að nokkur Íslendingur hafi gegnt jafn mikilvægu hlutverki í alþjóðastarfi og sá fyrrverandi ráðherra. Það sýnir hvaða traust er borið til okkar í þessu samstarfi. Vilji okkar er alveg skýr og ég vona að Norðurlöndin beri gæfu til að vinna eins mikið saman og mögulegt er. Það gekk einstaklega vel hjá okkur að vinna saman þegar kom að borgaraþjónustuverkefninu, en í mörgu má gera betur.

Þegar kemur að því hvort meiri fjármuni þurfi til þá getum við alltaf nýtt meiri fjármuni, það er bara þannig. Við komumst hins vegar ekki hjá því að horfa á það í hvaða stöðu við erum. Þegar við erum að tala um fjárlög næstu ára erum við að taka lán til framtíðar. Í mínum huga er það bara þannig, og ég er kannski einn um það, að við þurfum að nýta þá peninga betur sem við höfum núna. Við viljum ekki að börnin okkar lendi í því að vera með skuldaklafa vegna þess að við höfum ekki sinnt því hlutverki okkar.