151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[17:12]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kemur með góðar en krefjandi spurningar. Ég er sammála hv. þingmanni um að Norðurlöndin áttu að standa sig betur því að við viljum geta litið á okkur sem samþættasta svæði heims. Ég fór ekkert í grafgötur með að ég var mjög ósáttur við hvernig hlutirnir fóru af stað, sérstaklega þegar kom að Covid-faraldrinum. Ég tel líka að við getum gert betur þegar kemur að því að leysa úr þessum málum. Eins og hv. þingmaður vísaði til var borgaraþjónustuverkefnið algjörlega til fyrirmyndar. En þó ekki væri annað en með gagnkvæm skírteini upp á ferðalög er margt sem við getum gert miklu betur til að verða í raun samþættasta svæði heims. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni.

Ég vonast til þess að við getum tekið skýrslu Björns Bjarnasonar og rætt hana hér og í hv. utanríkismálanefnd og þar eru margir þættir inni. Hv. þingmaður dregur netöryggismálin fram en þau eru gríðarlega mikilvæg. Svo mikið er víst að við gerum eitthvað ein í þeim málum, ég ætla ekki að gera lítið úr því, en við verðum að vinna að þeim með bandalagsþjóðum okkar. Hv. þingmaður nefndi setrið í Helsinki, ég hef líka litið á setrið í Tallinn, þó að það sé ekki á Norðurlöndunum, og mér finnst það vera veikleiki að við séum ekki þátttakendur í því samstarfi. Mér finnst einhvern veginn að maður þurfi ekki að rökstyðja af hverju það er forgangsmál að vinna með bandalagsþjóðum okkar þegar kemur að netöryggismálum. Ég hef sagt það í þessum stól áður að mér finnst við vera allt of bláeyg þegar kemur að þessari ógn. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að hér er verk að vinna og ég vonast til að við fáum góða umræðu hér í þinginu og vonandi einhverja bragarbót í þessum málum.