151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[17:14]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Við hæstv. ráðherra getum verið sammála um margt, ekki allt, en m.a. það að ekki er samasemmerki á milli þess að auka fjármagn í málaflokka og að auka gæði vinnu, starfsemi, ég get alveg tekið undir það. Hins vegar skiptir máli að forgangsraða þegar við stöndum frammi fyrir samdrætti til málaflokks eins og þessa, þegar við þurfum að byggja undir utanríkisþjónustuna, efla tengslin og opna leiðir og hafa þær greiðari en nokkurn tímann fyrr. Þess vegna verður mikilvægi EES-samningsins aldrei of oft undirstrikað.

Ég rek augun í að á bls. 176 er talað um hagkvæmni í rekstri og að forgangsraða í þágu ákveðinna verkefna. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki alveg á hreinu að við séum að forgangsraða í þágu EES-samningsins. Við eigum að gera allt til þess að verja þann mikilvæga alþjóðasamning sem við erum aðilar að og hefur haft ótrúlega þýðingarmikil áhrif til bættra lífskjara á Íslandi og opnað dyr, ekki bara varðandi viðskipti, heldur einnig námsmenn o.fl. Það þekkjum við. Það segir á bls. 176:

„Að óbreyttu er því veruleg áskorun fólgin í því að fylgja eftir áherslumálum sem krefjast mikillar athygli, svo sem styrkingu á framkvæmd EES-samningsins …“

Í ljósi þess að mér finnst þessi ríkisstjórn ekkert endilega hafa verið að tala upp EES-samninginn, þótt vissulega hafi ráðherra gert það af og til, vil ég fá það alveg á hreint: Er ekki alveg örugglega verið að forgangsraða í þágu EES-samningsins? Það er fyrri spurningin.

Síðan er það seinni spurningin. Mig langar að vita í ljósi alls þessa hvort hann sé þá sammála bæði Morgunblaðinu og ekki síður Miðflokknum í gagnrýni þeirra á EES. Tekur hæstv. ráðherra undir gagnrýni Miðflokksins og Morgunblaðsins á þennan mikilvæga alþjóðasamning okkar?