151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[17:16]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og fyrirspurnirnar. Fyrst aðeins varðandi forgangsröðunina. Ég er sammála öllu því sem hv. þingmaður segir um að það þurfi að forgangsraða. Ég vísaði til þess að við settum af stað ákveðna Covid-vinnu, ef þannig má að orði komast. Hver var hún? Jú, að læra af því sem gerðist í Covid. Hvernig virkaði þjónustan við þær aðstæður? Hvað getum við lært af því? Við verðum nefnilega að læra af þessu. Sumt gekk loksins upp, eins og samskipti í gegnum vídeó-fundi o.s.frv. sem búið er að tala um í áratugi. Það er alveg gríðarlega gott og við viljum halda því áfram. Sömuleiðis lögðum við áherslu á að hjálpa til við að opna dyr og hjálpa íslenskum fyrirtækjum að auka útflutningsverðmæti við að selja á erlendum mörkuðum. Það er dæmi um forgangsröðun.

Varðandi EES þá tala verkin þar. Frá því að ég kom hér inn hef ég lagt gríðarlega áherslu á að efla hagsmunagæslu í EES. Þess vegna eru nú fulltrúar allra ráðuneyta í Brussel. Sömuleiðis kom hér út EES-skýrsla og við erum með eftirfylgni með henni núna af því að það er ekki nóg að setja upp áætlanir og tillögur, við þurfum að fylgja því eftir. En þetta er ekki bara utanríkisþjónustan. EES-samningurinn tengist inn í öll fagráðuneytin og þurfa fleiri aðilar að koma að því og gera það auðvitað ef vel á að ganga.

Ég get svo sem ekkert farið að eltast við einhverjar opnar spurningar. Þeir sem töluðu niður EES-samninginn þegar hann fór af stað og síðan ég hóf þátttöku í stjórnmálum voru ESB-sinnar. Síðan hafa aðrir tekið það upp sem vilja fara út úr EES-samstarfinu. Ég held að það sé hins vegar alveg rétt sem lagt upp var með á sínum tíma, að ef EES-samningurinn væri ekki fyrir hendi er vandfundin önnur góð leið. ESB-sinnarnir, þeir sem töluðu niður EES-samninginn, voru með skýrt markmið, þeir töluðu þannig til að menn myndu hrekjast inn í ESB í kjölfarið. Þó svo að ég treysti því að hv. þingmaður ætli ekki að vera þar þá sé ég þess enn dæmi hjá þeim sem vilja að við göngum í ESB.