Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[17:23]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hér er verið að ræða málefni utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Mig langar að byrja á því að spyrja hann um EES-samninginn. Það er margt gott í honum. Það er margt allt í lagi og svo er margt slæmt. En ég vil fá upplýsingar hjá honum vegna þess að Eftirlitsstofnun EFTA hefur nú sent Íslendingum lokaaðvörun í meintu samningsbrotamáli, sem stofnunin hefur haft til meðferðar í átta ár, þar sem krafist er að lög og tilskipanir frá ESB verði gerð rétthærri og æðri íslensku réttarfari. Hér kemur enn og aftur fram að EES-samningurinn er baneitraður og hann þverbrýtur stjórnarskrána ef þetta er rétt. Ég vil fá á hreint: Er það ekki skýrt? Er ekki kominn tími til að við klippum á naflastrenginn og segjum bara Evrópusambandinu hreint og beint út að íslensk lög gildi? Ég myndi líka segja að við ættum kannski á sama tíma að senda Bretum innilegar samúðarkveðjur, en samt fagna með þeim að sleppa undan því skelfilega skrímsli sem ESB er. Maður sér það bara best á því sem við vorum að ræða hér áðan, um 25% yfirráð yfir fiskimiðunum. Það sýnir hreinlega að þeir mega vera guðs lifandi fegnir þegar þeir loksins sleppa. En ég vil fá það fram hvort það sé ekki algerlega á hreinu að íslensk lög gildi en ekki EES.