Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[17:27]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra svarið og ég er alveg sammála því að við eigum að halda í EES-samninginn en við eigum að halda þessu óbreyttu. Við eigum ekkert að láta þá ráða yfir okkur, íslensk lög eiga að gilda.

En ég ætla að fara út í annað. Hér áðan var talað um hreina orku. Hæstv. utanríkisráðherra sagði að hann hefði fengið mjög mikla athygli út á það að Ísland er með hreina orku. En hvað segir hann þá um þá staðreynd að við erum að selja þessa hreinu orku? Við erum að selja hana til þeirra sem brenna olíu, nota kjarnorku. Finnst honum það eðlilegt? Er hann spurður um það hversu mikið við erum að selja og hvers vegna við erum að ýta undir það að umhverfissóðar geti fengið stimplun frá okkur um að þeir nýti hreina orku þegar þeir hafa hana ekki?

Mig langar líka að spyrja hvort það hafi komið til tals hvort ekki sé kominn tími til að við tökum upp vegabréfaeftirlit á landamærum. Mér finnst sjálfsagt að við vitum hverjir það eru sem koma til landsins, sérstaklega á þessum tímum þegar sú staða virðist komin upp að erlendir glæpaflokkar séu farnir að hasla sér völl hérna. Þar af leiðandi hlýtur þetta að vera lágmarkskrafa. Ég veit að Danir hafa tekið þetta upp og Svíar hafa tekið upp landamæraeftirlit tímabundið. Ég veit ekki hvort þeir gera það enn. En ég þurfti að sýna vegabréf á milli Þýskalands og Danmerkur. Þannig að ég spyr bara: Af hverju í ósköpunum erum við ekki með landamæravörslu hér þannig að fólk þurfi að gera grein fyrir sér þegar það kemur til landsins?