151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[17:29]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir fyrirspurnina. Fyrst um það hvort þetta snýst um að einhver ráði yfir okkur. Við viljum halda í það að ekki sé brotið á okkur á EES-svæðinu. Þá beitum við okkar stofnunum og segjum: Það er verið að brjóta á okkar fyrirtækjum. Það er ekki farið eftir þeim reglum sem við höfum sammælst um. Þannig að það verður ekki bæði sleppt og haldið. Ef við erum ekki með þetta þá er það augljóst að ef íslensk fyrirtæki gætu ekki keppt á jafnréttisgrundvelli í Evrópu er hætta á að þau myndu fara til Evrópu. Það sama gildir auðvitað um annað. Það er fullt af fólki, sérstaklega eldra fólki, sem vill t.d. búa í heitum löndum í Evrópu og þá hefur það sama aðgang og það hefur hér að heilbrigðisþjónustu og öðru slíku. Það er auðvitað mjög gott. Ef það er brotið á okkur þá segjum við: Þið eruð að brjóta þessar sameiginlegu reglur okkar. Við þurfum auðvitað að vera sjálfum okkur samkvæm. En málið sem um er að ræða er flóknara og er lagaþræta frekar en eitthvað annað. En við erum auðvitað alltaf hörð á því prinsippi okkar að við erum fullvalda ríki og við þurfum alltaf að gæta hagsmuna okkar. Sjálfstæðisbaráttan er endalaus. Henni lýkur aldrei.

Ef hv. þingmaður er að vísa til aflátsbréfa þá verð ég viðurkenna að ég skil það ekki alveg. Það heyrir ekki undir mig en eins og aðrir lít ég á þetta og segi: Hlutirnir eru ekki alveg eins og þeir eiga að vera. Ég held að við eigum að fara mjög varlega í það að selja það eitthvað annað, svo ekki sé dýpra í árinni tekið.

Varðandi vegabréfaeftirlit þá vísaði hv. þingmaður í Schengen og hann verður að ræða það við dómsmálaráðherra sem fer með þau mál. (Forseti hringir.) Ég hef reyndar aldrei getað farið á milli Evrópuríkja eða komið til landsins án þess að sýna vegabréf, hef alla vega þurft að hafa það við hendina, en það er annað mál.