151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[17:41]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (U):

Herra forseti. Við sjáum hér áfram þá þróun sem við höfum séð undanfarin ár sem er lækkun útgjalda til utanríkismála. Nú er boðað að lækka framlög til utanríkismála næstu fjögur árin um allt að 10–11%. Í fjármálastefnunni kemur fram að fjárheimildir til málaflokksins lækka fyrst og fremst vegna þess að framlög lækka til uppbyggingarsjóðs EES og vegna verkefna sem renna sitt skeið á tímabilinu. Það sem er jákvætt hér er að formennska Íslands í Evrópuráðinu er eitt helsta tilefni til útgjaldahækkunar ásamt hækkun á samningsbundnum framlögum til fjölþjóðasamstarfs. Sem formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fagna ég því að loksins séum við komin með fast land undir fætur þegar kemur að formennsku okkar í þessari gríðarlega mikilvægu mannréttindastofnun sem við eigum aðild að.

Við fyrstu sýn er jákvætt að sjá að það verður hækkun á útgjöldum til þróunarmála á næstu fjórum árum, eða um 1,3% að núvirði, en sú hækkun þarfnast ítarlegri útskýringar þar sem um er að ræða hækkun á framlögum til þróunarmála sem eiga að renna beint til starfsstöðva fastanefndar Íslands í New York, Genf, París og Róm. Með öðrum orðum: Fjármunir til reksturs á starfsstöðvum Íslands í dýrustu borgum heims eru teknir af fjárheimildum þróunarsamvinnu í staðinn fyrir að vera teknir af rekstrarfjármunum utanríkisráðuneytisins sem ég hefði haldið að væri eðlilegra. Það tel ég bera vitni um nokkuð sérkennilegar áherslur í meðferð fjármuna.

Herra forseti. Mér þykir mikilsvert að fjárframlög til þróunarmála fari beint í knýjandi verkefni sem eiga að gagnast beint til þess að bæta hag og daglegt líf okkar minnstu bræðra og systra en ekki í rekstur sendiskrifstofa. Vil ég því að hæstv. ráðherra útskýri það nánar.

Síðan vil ég fá að heyra frá hæstv. utanríkisráðherra hvernig fjármunum verður varið í að efla hagsmunagæslu Íslands og íslensk sjónarmið innan EES líkt og kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum. Ég hef því miður ekki séð hingað til markvissar hækkanir sem tengjast þeirri mikilvægu hagsmunagæslu. Ég treysti ráðherranum til þess að ekki sé verið að klípa af fjármunum í þessa nauðsynlegu hagsmunagæslu, sem verður að vera staðið við af fullum krafti, (Forseti hringir.) til að setja í áhugamál hæstv. ráðherra, sem er fríverslunarsamningur við Bandaríkin. Það er eins og staðan er í dag í besta falli fugl í skógi. (Forseti hringir.) Evrópusamstarfið er Íslandi langmikilvægast nú sem áður og um það þarf að standa vörð og vinna mun betur á þeim vettvangi og að hagsmunum okkar Íslendinga.