151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[17:44]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég áttaði mig ekki alveg á öllu því sem hér kom fram. Kostnaður við EES-samninginn er 2,5 milljarðar á ári. Það er ekki neitt eyrnamerkt í meintan fríverslunarsamning við Bandaríkin. Það er svolítill munur þar á, af því að hv. þingmaður var einhvern veginn að leggja þetta að jöfnu. Við erum ekki bara að tala um að styrkja hagsmunagæslu við EES, við framkvæmum það. Núna eru fulltrúar allra ráðuneyta í Brussel. (RBB: Er það nóg?) Þegar menn sóttu um aðild að Evrópusambandinu þá tóku menn þetta út. Það var síðan ekki gert þangað til að ég lagði áherslu á þetta og í þeim tveimur ríkisstjórnum sem ég hef verið í var sátt um að gera það. Ég held að við gerum aldrei nóg í hagsmunagæslu. Ég held að það sé ekki hægt. Um leið og einhver heldur að það sé búið að gera nóg í hagsmunagæslu þá er hann kominn á vondan stað. En við gerum miklu meira en við höfum gert áður og höfum ekki bara talað um það heldur framkvæmt sömuleiðis.

Varðandi þróunarmálin þá eru þeir sem vinna að þeim auðvitað bæði á Rauðarárstígnum og víðs vegar um heiminn. Það er mjög langur vegur frá að öll aukningin fari í sendiskrifstofur, mjög langur vegur frá. En það er bara ein leið í mínum huga og það er að gera þetta eftir þeim alþjóðlegu stöðlum sem eru til staðar. Ég sé ekki neina aðra leið. Ég held að það væri ekki mjög gott ef við værum að ræða þessi framlög og gera þessa hluti með einhverjum allt öðrum hætti en þær þjóðir sem við berum okkur saman við. Það myndi ekki auðvelda umræðuna. Við förum bara eftir þeim reglum og alþjóðlegu stöðlum sem eru til staðar. Menn þekkja t.d. umræðuna um DAC, hv. þingmaður þekkir það mjög vel sem nefndarmaður í hv. utanríkismálanefnd að þegar þeir breyttu reglunum (Forseti hringir.) þá tókum við mið af því. Ég er mjög fylgjandi því, virðulegur forseti, að fara eftir reglum.