151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[17:46]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (U):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svörin. Ég hefði kannski viljað sjá meiri metnað þegar kemur að hagsmunagæslu okkar varðandi EES-samninginn. En mig langar til að víkja að loftslagsmálunum sem eru á borði utanríkisráðuneytisins líkt og annarra ráðuneyta. Hvernig sér hæstv. utanríkisráðherra fyrir sér að þetta stærsta verkefni okkar tíma og framtíðarkynslóða, þegar kemur að mikilvægi alþjóðasamvinnu á vettvangi loftslagsmála, verði umfangsmeira en nú er? Það er miður að sjá þessum málaflokki vera eins illa sinnt af hálfu utanríkisráðuneytisins og kemur því miður fram í fjármálaáætluninni. Ég vildi óska þess að hæstv. utanríkisráðherra deildi þeim áhuga með mér að setja loftslagsmálin framar í sínum áherslumálum, til að mynda hefur hann haft mikinn áhuga á því að efla nánara samstarf við Bretland og Bandaríkin. Ég vil hvetja hæstv. utanríkisráðherra til að deila með okkur hinum hvernig utanríkisstefna Íslands getur hverfst meira og betur um loftslagsmálin. Loftslagsmálin í utanríkisstefnunni eru líka gríðarlega mikilvægt viðbragð við Covid, sem hluti af viðspyrnunni og í framhaldinu.

Síðan eru það varnar- og öryggismálin sem búið er að tæpa á í þessari umræðu. Hæstv. ráðherra þarf líka að útskýra með skýrum hætti hvaða fjármunir nákvæmlega fara til viðhaldsverkefna vegna viðveru herliðs sem, eins og fram kom í ræðu hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar, er orðin dagleg og til varnarverkefna á næstu fjórum árum. Hversu háar upphæðir sér hæstv. ráðherra fyrir sér að ná í vasa skattgreiðenda til uppbyggingar á hernaðarmannvirkjum og á varnarsvæðinu á næstu fjórum árum? Ég verð að viðurkenna að ég á erfitt með að sjá það nákvæmlega svo ég bið hæstv. ráðherra um að skýra framlög til varnarmála og stefnu hans og sýn og hvernig hún rímar við stefnu og sýn stjórnmálaflokksins sem leiðir ríkisstjórnina sem hæstv. ráðherra er hluti af.