151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[17:53]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég kem eitthvað að þjóðaröryggismálunum enda sit ég í stóli varaformanns þjóðaröryggisráðs. Ég get verið sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess að taka þátt í starfi alþjóðastofnana og ég held að við séum sammála um að við eigum að líta á öryggismálin í víðu samhengi. Við horfum fram á ógnir sem enginn talaði um fyrir 10–15 árum, nema kannski þeir sem sáu hvað lengst fram í tímann, sem eru t.d. netöryggismálin. Það skiptir afskaplega miklu máli, ef við ætlum að ná árangri, að við vinnum með bandalagsþjóðum okkar þegar að þeim málum kemur, en þær gera það allar með einum eða öðrum hætti, hvort sem það eru Norðurlöndin eða löndin í Atlantshafsbandalaginu, undir hatti varnarmála því að þetta er samtvinnað. Stjórnvöld allra þjóðríkja hafa þá skyldu að vernda líf og frelsi þegna sinna. Ég vildi að heimurinn væri allt öðruvísi en hann er, en hann er bara svona. Við getum sagt að það sem við lærum af sögunni sé að við lærum ekki af sögunni. Þú þarft ekkert að hitta oft fólk sem býr við ógn sem það er raunverulega hrætt við. Við höfum séð í Evrópu á undanförnum árum að landamærum hefur verið breytt. (Forseti hringir.) Við getum ekki látið eins og það sé ekki að gerast og við getum ekki boðið íslenskri þjóð upp á það að vera varnarlaus. Það er bara ekki hægt.