151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[17:58]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það sem ég er ánægður með í áherslum hv. þingmanns er að hann lítur til öryggismála í víðu samhengi. Þar náum við alveg saman. Og aftur: Það er varnarmál þegar kemur að t.d. netöryggismálum. Ef litið er til þess hve háð við erum orðin þessum kerfum, og verðum enn háðari, og hve auðvelt það er fyrir þá sem hafa þekkingu og getu að búa til allra handa skaða, þá verðum við að vera algjörlega vakandi í því. Ég er algjörlega með hv. þingmanni þar.

Ef hv. þingmaður getur lofað mér, sem hann getur ekki, að það verði aldrei þannig aftur að menn fari með hernaði gegn öðrum þjóðum þá getum við endurskoðað málin. Við höfum verið lánsöm í gegnum tíðina og það er gott. Við eigum enga slíka sögu. Horfum bara til vinaþjóða okkar, Eystrasaltsríkjanna, sem ég hvet alla til að gera. Hugsum okkur ef Ísland hefði verið eitt af þeim ríkjum, verið á milli Eistlands og Lettlands. Við hefðum vaknað einn daginn, af því að hv. þingmaður þekkir söguna, við að Sovétmenn væru komnir. Einu eða tveimur árum seinna voru svo Þjóðverjar komnir. Svo komu Sovétmenn aftur. Þessar þjóðir voru á nákvæmlega sama stað og við vorum 1918 og þeim finnst mikið til frændsemi okkar og vináttu koma, og ég er sammála því. Við erum heppin að hafa ekki lent í þessu, en það er líka af ákveðnum ástæðum. Það er vegna þess að höfum verið í sterkasta varnarbandalagi heims. Það treystir sér enginn til að fara út í slíkt og (Forseti hringir.) vonandi verður það aldrei. Vonandi sjáum við afvopnun, vonandi sjáum við friðsamlegri tíma, en við getum ekki tekið áhættu með öryggi íslenskra þegna og íslenskrar þjóðar.