151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[18:06]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Í kafla um málaflokk 27.1, bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, örorku, segir:

„Meiri áhersla verði lögð á getu fólks til starfa. Lögð verði áhersla á getu fólks til að framfæra sig sjálft, þ.m.t. með eigin vinnuframlagi, í stað þess að líta eingöngu til skerðingar vegna sjúkdóms eða fötlunar. Mikilvægt er að huga að möguleikum öryrkja á vinnumarkaði og draga fram styrkleika einstaklinga til virkrar þátttöku í samfélaginu, þar á meðal á vinnumarkaði. Þáttur í því er að þróað og innleitt verði þverfaglegt mat sem byggist á líkamlegum, sálfræðilegum og félagslegum áhættuþáttum í stað læknisfræðilegra þátta. Er það í samræmi við þá þróun sem hefur átt sér stað í nágrannaríkjum okkar.“

Að þessu sögðu langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki hafi komið til tals að leggja þetta starfsgetumat til hliðar, fara dálítið yfir þann þátt og byrja á því að auglýsa ákveðin störf sem fólk getur sótt um, búa fyrst til störfin og flækja ekki málin og sjá til þess að fólk geti sótt um þau störf. Hægt er að gera það í gegnum Vinnumálastofnun sem hefur starfsstöðvar víða um land og hið opinbera gæti því gengið á undan með góðu fordæmi. Við heyrum reyndar að það gangi betur í einkageiranum að ráða fólk með skerta starfsgetu.