151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[18:16]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar vangaveltur og spurningar. Og ég segi: Já, forsenda þess að okkur takist að verja alla aðra málaflokka sem hið opinbera veitir fjármagni í er að okkur takist að komast í gegnum vinnumarkaðsþáttinn.

Ég hef efasemdir um að mögulegt sé að skapa tugþúsundir starfa án þess að við náum að blása lífi aftur í þá atvinnugrein sem er bara á núlli núna. Við vorum að sjá fyrirsagnir í blöðunum um að samdrátturinn hjá Icelandair væri 97%. Við höfum einfaldlega fjárfest ofboðslega mikið í ferðaþjónustunni og það ríður á að við komum henni af stað sem hraðast aftur vegna þess að á þessum skamma tíma munu aðrar atvinnugreinar ekki geta tekið við öllu þessu fólki. Við munum þurfa skapandi hugsun til að ná með einhverjum hætti að opna landið, ná að opna ferðaþjónustuna og koma henni í gang eins fljótt og mögulegt er.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um sveigjanleika í atvinnuleysisbótakerfinu, hvort fyrirtæki og stofnanir geti fengið atvinnuleysisbætur, þá skrifaði ég undir reglugerðarbreytingu fyrir tveimur vikum síðan, að ég held, þar sem einmitt var opnað á að gera þann sveigjanleika mögulegan og það er ekki bundið við ákveðin landsvæði. Breytingin sem við gerðum á þeirri reglugerð er núna í undirbúningi og þegar er hafið samtal við ákveðin svæði. Á svæðum þar sem atvinnuleysi fer yfir 6%, sem er því miður ansi stórt svæði á landinu, er eftir þessa reglugerðarbreytingu heimilt að ráða fólk í vinnu og halda bótum ef viðkomandi hefur verið atvinnulaus í einn mánuð. Gerð er krafa um þennan eina mánuð og að fyrirtækið hafi ekki verið að segja upp starfsfólki (Forseti hringir.) fram að því. Þannig að við erum búin að gera umrædda breytingu og það stendur fyrir dyrum að kynna hana betur og fara svo í framhaldinu í sérstök átaksverkefni (Forseti hringir.) með einstaka fyrirtækjum, atvinnurekendasamtökum eða einstökum sveitarfélögum eða landshlutum.