151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[18:18]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og hvet hann til að kynna sér betur þá leið sem var farin eftir hrun þar sem viðkomandi heldur ekki bótunum heldur er verið að hvetja fyrirtækin sem mega að sjálfsögðu ekki borga fólki undir taxta. En því miður hefur hæstv. ríkisstjórn ekki treyst sér til að hækka grunnatvinnuleysisbæturnar, ekki einu sinni tímabundið eins og við í Samfylkingunni lögðum til.

Fátækt er pólitísk ákvörðun, hæstv. ráðherra, og því vil ég spyrja: Hvernig stendur á því að þess sjást engin merki að komið verði til móts við þær þúsundir fjölskyldna sem horfa núna fram á fátækt, fjölskyldur sem hafa misst lífsviðurværið? Þá vil ég líka spyrja út í tekjutengda tímabilið sem lengt var með lögum í september síðastliðnum en þá þegar höfðu þúsundir fallið niður á grunnbætur. Hæstv. fjármálaráðherra sagði í Silfrinu á RÚV um helgina að það hefðu verið mistök, svo að ég vitni beint í hann, í lagasetningu að tryggja ekki samfellu. Kemur til greina, hæstv. félagsmálaráðherra, að þær þúsundir sem komnar eru á grunnbætur, rétt um 240.000 eftir skatt, fái framlengingu á tekjutengingu og komist inn í þetta kerfi?

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra út í lífeyrisgreiðslur úr almannatryggingakerfinu sem hafa dregist verulega aftur úr lágmarkslaunum á undanförnum árum. Ef elli- og örorkulífeyrir hefði hækkað eins og launavísitalan væri lífeyrir ekki rúmar 250.000 kr. heldur tæpar 300.000 kr. Það munar rúmum 40.000 kr. Finnst hæstv. félagsmálaráðherra sæma að skilja þennan viðkvæmasta hóp landsins eftir, að láta lífeyri fylgja neysluverðsvísitölu í stað launavísitölu og að þess vegna dragist þessi hópur stanslaust aftur úr lífskjörum sem nemur tugum þúsunda í hverjum mánuði?