151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[18:21]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur aldrei útilokað neitt varðandi lengingu á tekjutengda tímabilinu eða annað sem lýtur að atvinnuleysisbótum. Við erum einfaldlega alltaf að skoða þetta, alltaf að meta hvenær og hvernig við getum brugðist við. En við verðum líka að skoða hlutina í samhengi við ríkisfjármálin, í samhengi við hversu miklar fjárheimildir við höfum og hversu mikið er skynsamlegt að taka að láni, hversu langur þessi tími verður og fleiri atriði þarf að vega og meta.

Af því að ég var að fara yfir það hér áðan, og bara til að átta sig á tölunum, bendi ég í þessu samhengi á að útgreiddar atvinnuleysisbætur voru 20 milljarðar árið 2018, eru núna komnar í 64 milljarða og við gerum ráð fyrir að það lifi út alla þessa áætlun. Ástandið á vinnumarkaði er grafalvarlegt og stóra verkefnið er: Hvernig getum við komið sem flestum aftur í vinnu? Hvernig getum við komið ferðaþjónustunni af stað aftur?

Ég fór yfir það inngangsræðu minni að heildarfjármagnið sem rennur til almannatryggingakerfisins hefur nær tvöfaldast á síðustu fimm til sjö árum. Jú, hv. þingmaður. Það hefur gert það og til þeirra málaflokka sem hv. þingmaður nefndi. Stóra verkefnið þar tengist líka vinnumálunum. Í fjárlagafrumvarpinu sem á að fara að leggja fram gerum við áfram ráð fyrir að bætur séu tengdar vísitölu og þær muni hækka. Ég geri mér grein fyrir að þar erum við ekki að tala um launavísitölu heldur neysluverðsvísitölu en ef við ætlum að verja stöðu þessara hópa, líkt og gerist í þessari fjármálaáætlun, er stóra verkefnið að það takist að skapa hér verðmæti og tekjur. (Forseti hringir.) Þá er atvinnuleysið grunnurinn að því. Það getur ekki verið sjálfbært til lengdar að reka ríkissjóð með halla. En ríkisstjórnin (Forseti hringir.) gerir ráð fyrir því af því að hún ætlar að verja þessa hópa. Það er staðreynd. Það sýna gögnin. Það sýna tölurnar.