151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[18:23]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. félags- og barnamálaráðherra ræðir um hlutdeildarlánin sem hafa mælst ótrúlega vel fyrir. Ég finn það á Suðurnesjum að mjög margir spyrja um það framboð sem væntanlega verður þar, en 20% íbúða af þeim 400 sem á að styðja á ári verða á landsbyggðinni. Í reglugerð sem kom á samráðsgáttina í dag eru samkvæmt 14. gr. eftirfarandi skilyrði um hámarksstærð íbúða: að tveggja herbergja íbúð sé ekki stærri en 90 m² og hámarksverðið 44 millj. kr. Á Ásbrú eru til íbúðir eftir gagngerar endurbætur, stórglæsilegar, sem eru u.þ.b. 5 m² stærri en metið er hagkvæmt samkvæmt 14. gr. Íbúðir á Ásbrú kostar 27 millj. kr. eða 17 milljónum minna en hámarksverð er fyrir slíka íbúð. Fermetraverð er u.þ.b. 280.000–300.000 kr. þegar tekjulágir þurfa að kaupa sér íbúð sem kostar á bilinu 400.000–550.000 kr. á fermetra. Reglugerðin á samráðsgáttinni má ekki vera svona kassalaga.

Virðulegur forseti. Fjögurra herbergja íbúð má vera 100–110 m², samkvæmt áðurnefndri reglugerð, og hámarksverð 52 millj. kr. Á Ásbrú eru íbúðirnar 123–127 m² á 33–37 millj. kr. eða u.þ.b. 15 millj. kr. ódýrari en hámarkið hvað varðar nýju íbúðirnar.

Ég spyr því ráðherrann, í ljósi þeirrar hugsjónar laganna að hlutdeildarlán á íbúðir bjóðist á landsbyggðinni og séu ódýr og góður kostur, hvort við þurfum ekki að laga reglugerðina og hafa hana sveigjanlegri gagnvart íbúum sem vilja kaupa nýtt eða notað og endurgert húsnæði á landsbyggðinni.