151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[18:28]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir þetta góða svar. Ég held að sú hugsun sem kom fram í lögum um hlutdeildarlán þurfi að ná fram að ganga. Ráðherra sagði að hann gæti auðvitað ekki lofað því hér og nú að nákvæmlega yrði staðið við þau fermetraverð sem fram koma í reglugerðinni eins og hún birtist í dag. Ég held að það sé mikilvægast í öllu þessu að hagsmunir íbúðarkaupandans séu fyrst og fremst hafðar í huga. Ef um er að ræða verulega mikinn verðmismun á húsnæði sem stenst allar kröfur, stenst öll viðmið og allt sem við förum fram á í lögunum, og var mikið rætt í nefndinni og í þinginu þegar þau voru sett og gerð, þá held ég að við verðum fyrst og fremst að hugsa um hag kaupendanna. Við verðum þá að mæta því með því að bæta úr með þessari reglugerð í samráðsgátt.

Eins og ráðherra minntist svo vel á, virðulegur forseti, er þetta auðvitað sett fram til að hafa samráð. Ég veit að menn í þessu ráðuneyti, eins og ráðherrann, eru ekki kassalaga. Þeir munu skoða það sem hér hefur verið bent á og þær athugasemdir sem munu berast. Að öðru leyti vil ég bara ítreka að það hefur komið mér á óvart að þessi lánamöguleiki hefur mælst ótrúlega vel fyrir. Bæði hef ég fengið gríðarlega mörg samtöl og heyri á fólki að það séu ótrúlega margir sem vilji nýta sér þennan möguleika.