151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[18:30]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka það aftur að þessi reglugerð var sett í samráðsgátt til þess að hægt væri að fá fram ábendingar. Þetta er stórt mál, þetta er stór kerfisbreyting og eins og þingið afgreiddi málið fól reglugerðin í sér ansi stórar ákvarðanir um útfærslu leiðarinnar. Því fannst mér mikilvægt að hún yrði ekki undirrituð nema fram færi opin og gegnsæ umræða um hana. Ég hét því líka hér í þingsal við afgreiðslu málsins á síðustu dögum þingsins, en uppi varð fótur og fit vegna þess að menn töldu í misskilningi að ráðherrann væri að falast eftir reglugerðarheimild, að hún færi í samráðsgátt og allir gætu tjáð sig um hana.

Að því sögðu vil ég líka segja að mikilvægt er að hafa í huga að sú undanþága sem gildir gagnvart landsbyggðinni lýtur að endurgerðu húsnæði en það er hagur þeirra sem vilja komast í eigið húsnæði að meira sé byggt af hagkvæmu húsnæði. Jafnvel þó að við stjórnmálamenn verðum fyrir þrýstingi, á þann veg að þetta eigi að gilda um allar eignir, ekki bara nýjar eignir, þá meina ég hér á höfuðborgarsvæðinu, er mikilvægt að við höfum hugfast að hagur ungs fólks er að hagkvæmt húsnæði sé byggt. Þess vegna má aldrei missa sjónar á hinu tvíþætta hlutverki þessara laga. Annars vegar að tryggja ungu fólki að komast í eigið húsnæði, hins vegar að tryggja aukið framboð á nýju húsnæði. Ef við myndum opna þetta alveg, þannig að þetta mætti gilda um allt húsnæði, væri þetta bara orðin aðgerð á eftirspurnarhlið en ekki á framboðshlið. Mér finnst gríðarlega mikilvægt að því sé alltaf haldið til haga og sérstaklega núna vegna þess að þetta er einmitt verkfæri sem við getum notað á tímum sem byggingarmarkaðurinn er fara niður eins og hefur gerst í kreppum áður í Íslandssögunni. Nú er tækifærið til að nota þetta tæki til að hvetja til þess að byggt verði meira af húsnæði og svo getum við kannski hægt aðeins á því þegar markaðurinn er á fullu. Þetta tvíþætta hlutverk verðum við að hafa í huga.