151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[18:38]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Þetta voru allmargar spurningar en ég ætla að gera mitt besta til að svara þeim. (Gripið fram í.) Mér reiknaðist til að þær væru fjórar. Í fyrsta lagi, varðandi stefnuna núna, vegna þess að hv. þingmaður kom inn á það, vil ég segja að það sem hver ríkisstjórn sem er við völd verður að hafa í huga á þeim tímum sem nú eru er að hún verður að vera tilbúin í sveigjanleika. Við erum alltaf að vinna að því að koma atvinnulífinu aftur af stað. Verið var að kynna hertar sóttvarnaaðgerðir í gær og aftur í dag. Þetta plagg fór í prentun fyrir mánuði, eða einum og hálfum mánuði. (Gripið fram í.) Þegar við lifum á tímum eins og þessum gerast breytingarnar svo hratt að það er gríðarlega mikilvægt að við séum tilbúin að bregðast við hverju sinni. Það er það sem ég var að meina áðan þegar ég sagði: Ríkisstjórnin er tilbúin til að bregðast við. Það hefur löggjafinn líka verið og það er gríðarlega mikilvægt á þessum tímum að það sé svo. En verkefnið er að koma atvinnulífinu af stað.

Varðandi þær hækkanir sem lúta að almannatryggingakerfinu þá hafa þær verið tengdar neysluverðsvísitölu. (Gripið fram í.) Þá vil ég segja: Þetta er sú niðurstaða sem er í fjárlagafrumvarpinu. Það eru að koma hækkanir þar inn og hefur verið unnið með það hingað til og verður gert áfram. En fari að þrengja að í hagkerfinu er gríðarlega mikilvægt að það verði áfram varið að hækkanir komi þarna inn. En ef við náum ekki atvinnuleysinu niður, ef við náum ekki hagkerfinu af stað, myndi ég segja: Það er veruleg hætta á því þegar kemur inn í þessa áætlun að við stöndum frammi fyrir öðrum veruleika hvað það snertir.

Varðandi Barnvænt Ísland þá er ég mikill stuðningsmaður þess og stefna er væntanleg í þingið í vetur og aðgerðaáætlun sem er í vinnslu. Þar held ég að mikilvægt sé að (Forseti hringir.) horft verði til allra þeirra aðgerða sem kynntar voru í umræddri stefnu, þar á meðal er valfrjálsa bókunin. (Forseti hringir.) Ég held að atburðir í málefnum barna síðustu vikur hafi sýnt mikilvægi hennar.