151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[18:40]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Í þeirri djúpu efnahagskreppu sem við erum að sigla í gegnum er mikilvægt að við byggjum á velsældarhagkerfi sem hefur verið leiðarstefið í stefnu þessarar ríkisstjórnar og endurspeglast í fjármálaáætlun. Við þessar erfiðu aðstæður er brýnt að verja kjör þeirra verst settu og það hefur verið leiðarljós ríkisstjórnarinnar og einnig við gerð síðustu lífskjarasamninga með aðkomu ríkisins. Fjölmörgum góðum málum hefur verið hleypt af stokkunum á þessu kjörtímabili sem koma tekjulágum, barnafólki, öldruðum og öryrkjum og atvinnulausum vel. Má þar nefna lengingu tekjutengdra atvinnuleysisbóta, félagslegan stuðning í húsnæðismálum, stuðning við atvinnulausa í námi, hækkun barnabóta og einnig hefur mikið verið dregið úr skerðingu til örorkulífeyrisþega og stórlega dregið úr greiðsluþátttöku aldraðra og öryrkja í heilbrigðiskerfinu. Framlög til þessa málaflokks hafa að raunvirði hækkað um 18 milljarða á þessu kjörtímabili.

Nýverið var samþykkt frumvarp um sérstakan félagslegan stuðning til þeirra öldruðu sem höllustum fæti standa og átak er í gangi í uppbyggingu hjúkrunarrýma vítt og breitt um landið og stórauknum fjármunum hefur verið varið í geðheilbrigðismál, m.a. aukið aðgengi að sálfræðiþjónustu. Allt eru þetta velferðarmál sem skipta miklu máli til að verja kjör og stöðu viðkvæmra hópa í þessum heimsfaraldri sem bitnar hart á efnahag þjóðarinnar um ófyrirséðan tíma.

Í upphafi kjörtímabils var lagt upp með að gera kerfisbreytingar á örorkulífeyriskerfinu og til þess ætlaðir 4 milljarðar á ári sem ekki hafa skilað sér að fullu til þeirra hópa sem þurfa mest á fjárhagsstuðningi að halda. Ég veit að ekki hefur náðst sameiginleg niðurstaða í þeim starfshópi sem um málið hefur fjallað. Fulltrúar öryrkja hafa átt aðild að þeim starfshópi. En ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Er ekki orðið tímabært að koma þessum fjármunum í hendur þeirra sem þeir voru ætlaðir og taka af skarið og koma fram með tillögur þess efnis?