151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[18:43]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu og ágætisupptalningu á mörgum þeirra verkefna sem ríkisstjórnin hefur unnið að og ágætisyfirferð yfir stöðuna í vinnu við breytingar á almannatryggingakerfinu þegar kemur að málefnum örorkulífeyrisþega og þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að fara í einhvers konar starfsgetumat eða hvetja til aukinnar þátttöku á vinnumarkaði og þær áskoranir sem hafa verið í kerfinu. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að áætlaðir voru 4 milljarðar í þetta verkefni og niðurstaðan varð sú að hluta af því fjármagni var ráðstafað á síðasta ári, m.a. til að draga úr skerðingum í kerfinu og til fleiri þátta sem hugsunin var að myndu nýtast þegar farið yrði í kerfisbreytinguna. Eftir stendur 1,1 milljarður, óráðstafað innan ramma. Hann heldur sér í fjármálaáætlun sem kynnt er hér.

Hugsunin var, eins og ég rakti í andsvari við hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, á síðasta vorþingi að gera einhverjar lagabreytingar til að þetta gæti komið fram en það náðist ekki, bara sökum Covid. Við höfum átt samtal við Öryrkjabandalagið um með hvaða hætti við ráðstöfum þessum 1,1 milljarði. Því samtali er ekki lokið og það er verið að vinna að útfærslum og ég á von á því að þetta verði kynnt á næstunni, skulum við segja. Það gæti þá tekið gildi og verið áfram á næsta ári ef fjárlög verða samþykkt með þessum 1,1 milljarði áfram inni, sem ég á nú von á.