151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[18:47]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða yfirferð yfir þetta úrræði, Nám er tækifæri, og mikilvægi þess að námsúrræði séu hluti af úrræðakistu Vinnumálastofnunar. Hún hefur það verkefni og hlutverk þegar einstaklingur missir vinnuna að finna honum annan farveg. Nám, það að geta farið og menntað sig á öðru sviði eða bætt við sig eða eitthvað slíkt, getur auðvitað haft úrslitaáhrif. Val á námi, val á því hvert einstaklingurinn stefnir, er alltaf unnið í nánu samstarfi við Vinnumálastofnun af því að verkefnið er að koma viðkomandi einstaklingi á vinnumarkað aftur.

Við erum nú búin að tryggja fjármagn til að geta sinnt þessu á þessu ári og næsta ári. Vinnumálastofnun fær fjármagn til að kaupa viðkomandi menntun af menntastofnun. Ég held að það væri mjög jákvætt ef við gætum gert þetta varanlega. En það veltur auðvitað á því fjármagni sem við setjum til málaflokksins vegna þess að Vinnumálastofnun þarf að hafa fjárhagslegt bolmagn til að kaupa viðkomandi þjónustu af menntastofnunum. Ég held að það væri mjög jákvætt ef þetta gæti orðið varanlegt. En við erum engu að síður búin að tryggja fjármagn sem þarf fyrir Vinnumálastofnun til að kaupa 3.000 námspláss með þessum hætti og við verðum bara að meta það hvort hún nær að fylla það og með hvaða hætti vegna þess að aðstæður fólks eru misjafnar, plönin eru misjöfn, tækifærin eru misjöfn. Ég yrði fyrstur til að styðja það að við myndum auka þarna við ef á þyrfti að halda. Ég hygg því að við hv. þingmaður séum nokkuð sammála um þetta.