151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[18:49]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Mig langar til að ræða hér í fyrri umferð framlengingu tekjutengdra atvinnuleysisbóta og forvitnast um ástæðu þess að þeir sem fyrst misstu vinnu vegna Covid-faraldursins í mars á þessu ári fengu ekki að njóta framlengingarinnar þegar hún var tilkynnt í lok ágúst. Þessi bútasaumur, sem við í Viðreisn og aðrir stjórnarandstöðuflokkar höfum ítrekað bent á að sé líklegur til að valda mistökum, virðist hafa raungerst í þessu máli. Það hljóta einfaldlega að vera mistök að sá fjöldi fólks sem missir vinnuna frá mars og fram undir lok ágúst skuli ekki falla undir sama hatt og þeir sem koma í kjölfarið. Það er ekki fyrr en um mánaðamótin ágúst/september sem ríkisstjórnin tilkynnir um þessa framlengingu þrátt fyrir að ítrekað hafi verið bent á að það væri skynsamlegt að gera í ljósi stöðunnar.

Hæstv. félagsmálaráðherra kom í andsvar við hv. þingmann Samfylkingarinnar, Helgu Völu Helgadóttur, áðan og útskýrði að þetta snerist um kostnað. Nú skil ég vel þær áskoranir sem stjórnvöld standa frammi fyrir varðandi þann gríðarlega kostnað og hallarekstur sem við blasir. En þetta getur ekki verið ástæðan vegna þess að ef þetta snerist um það þá hefði sú leið verið farin að hafa þetta ekki þriggja mánaða framlengingu heldur eins og hálfs mánaðar eða tveggja mánaða framlengingu til að tryggja það sem rétt er og það sem sanngjarnt er í þessum aðstæðum: Að allir (Forseti hringir.) njóti sömu aðstoðar stjórnvalda í þessum aðstæðum og þetta snúist ekki um tiltekna dagsetningu. (Forseti hringir.) Það er hættan þegar verið er að stíga þessi litlu skref, (Forseti hringir.) ómarkvissu skref. Hér hljótum við að standa frammi fyrir mistökum sem verða leiðrétt. Ég trúi ekki öðru.