151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[18:52]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu og vangaveltur. Ég vil segja það sem ég hef áður sagt: Það er ekkert útilokað í þessum efnum. Öll frumvörp eru lögð fram á Alþingi og fara til velferðarnefndar sem skoðar þau (Gripið fram í.) og það liggur alveg ljóst fyrir að alltaf eru atriði sem þarf að skoða á nýjan leik og betur sjá augu en auga í því efni. En þetta er eitthvað sem við erum að skoða og munum skoða áfram.

Hins vegar er mikilvægt að taka kostnaðinn inn í þetta. Það stefnir í að atvinnuleysisbætur fari í um 80 milljarða á þessu ári þar sem gert var ráð fyrir rúmum 20 milljörðum. Við höfum aldrei greitt jafn mikið í atvinnuleysisbætur og á yfirstandandi ári á sama tíma og mér finnst örla á því í umræðunni að ríkisstjórnin hafi gert svo lítið gagnvart atvinnulausum. Það er auðvitað ekki raunin vegna þess að þetta eru gríðarlega háar fjárhæðir. En getum við gert betur? Við getum örugglega gert betur. Við getum örugglega alltaf gert meira og betur í þessum efnum og sá sem hér stendur er algerlega tilbúinn í það.

Ég hjó eftir því í máli hv. þingmanns að hann talaði um bútasaum ríkisstjórnarinnar. Þar er ég algjörlega ósammála. Við verðum við þessar aðstæður að vera tilbúin til að bregðast við, bregðast hratt við og annað er ekki skynsamlegt þegar við vitum ekki hvað er handan við hornið, síðustu tólf mánuði höfum við ekki vitað það. Þegar við settum hlutabæturnar á vorum við að tala um að þetta gæti orðið mjög skammur tími og ferðaþjónusta gæti farið af stað í ágúst, september. Við vorum síðan að tala um, þegar við opnuðum, að við gætum kannski náð þokkalegum vetri. Hvernig má annað vera við þessar aðstæður (Forseti hringir.) en að þetta verði einhvers konar bútasaumur þegar maður veit skrambann ekkert hverju þessi veira tekur upp á á morgun eða hinn?