151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[18:56]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Ég tek undir með hv. þingmanni um mikilvægi samtakanna og hversu mikilvægum tilgangi þau þjóna og sérstaklega á tímum eins og þessum. Þó að þetta heyri ekki beint undir félagsmálaráðherra, vegna þess að gerðar voru breytingar þannig að þessi málaflokkur fluttist yfir til forsætisráðuneytisins, höfum við engu að síður verið í góðu sambandi og samstarfi við samtökin. Það leiddi til þess að við gátum gert örlítinn styrktarsamning við samtökin aukalega núna í miðju Covid til að sinna sérstaklega börnum og ungmennum á tímum Covid vegna þess að það var aukið álag þar eins og annars staðar.

Ég verð nú bara að viðurkenna að ég sá í fréttum eins og aðrir að til stæði að loka skrifstofu samtakanna. Formaður og framkvæmdastjóri samtakanna hafa óskað eftir fundi með mér og sú fundarbeiðni kom nú bara í dag. Ég var að skoða í símanum klukkan hvað það var, 16.28 sýndist mér, fyrir tveimur og hálfri klukkustund síðan. Ég hafði eiginlega hugsað mér að eiga þann fund með þeim og er í raun ekkert mikið meira inni í þessu en bara það sem kom fram í fréttunum. Án þess að því fylgi einhver loforð gagnvart hv. þingmanni eða öðrum þá vil ég fá tækifæri til að komast aðeins betur inn í málið.