151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[18:58]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hækkun á bótum almannatrygginga virðist gífurlega flókið fyrirbrigði. Hér fyrr í dag átti ég samtal við hæstv. fjármálaráðherra og eftir ótrúlega útreikninga sem ég fékk frá honum er ég gjörsamlega hættur að botna í hver reiknar hvað og hvernig fengin er út 3,6% hækkun um næstu áramót eða 3,5% hækkunin sem var 1. janúar á þessu ári. Ef rétt væri gefið ætti hækkunin að vera 7% núna miðað við launavísitölu. En hæstv. fjármálaráðherra sagði að þetta væri reiknað út samkvæmt sérstakri launavísitölu sem þeir hefðu fundið út fyrir næsta ár og þess vegna væru þetta 3,6%.

En svo hjó ég eftir því að hæstv. félags- og barnamálaráðherra sagði rétt áðan að miðað væri við neysluverðsvísitölu. Hvað er rétt? Er það neysluverðsvísitalan eða þessi furðulega launavísitala hæstv. fjármálaráðherra? Hún stóðst ekki vegna þess að í fjárlagaáætluninni stendur skýrum stöfum að áætlað er að launavísitalan hækki um 5,2% á næsta ári. Þarna erum við komin með enn eina töluna og ég spyr: Hefur hæstv. ráðherra séð þessa útreikninga eða veit enginn hvernig þetta er? Er aðferðin sem er beitt þarna bara eitthvert happa og glappa? Og síðan vil ég líka fá að spyrja hvort hann sé tilbúinn til að sjá til þess, í eitt skipti fyrir öll, að reiknuð verði út rétt framfærsla, mannsæmandi framfærsla, fyrir þennan hóp.