151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[19:03]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég virði honum til vorkunnar og ég skil ósköp vel að hann hafi ekki viljað svara fyrstu spurningunni minni um prósenturnar og það allt. Það er vegna þess að þetta er gjörsamlega óskiljanlegt og ég held að það sé bara ekki hægt að svara þessu, þetta er svo mikið bull.

Jú, við setjum rosalega mikið í þennan málaflokk en við skerðum alveg rosalega mikið á móti. Er það tekið inn í? Eða fjölgunin? Ekki skilar þetta sér í vasa öryrkjanna og ég held að í þessari fjármálaáætlun sé meira að segja gerð krafa um 12 milljarða kr. sparnað við NPA-þjónustu. Á sama tíma er sveitarfélag með þvingunaraðgerðir gegn fötluðum einstaklingi, bara þvingunaraðgerðir. Það tekur af honum ráð og völd og setur hann á hjúkrunarheimili, rukkar hann líka og reynir hreinlega að ná af honum íbúðinni hreinlega vegna þess að hann getur ekki borgað á báðum stöðum.

Ég segi fyrir mitt leyti: Hvað er í gangi í þessum málaflokki? Er engin haldbær stefna hjá þessari ríkisstjórn? Er sú stefna hreinlega ráðandi að fólk sem hefur það skítt eða er í biðröðum eftir mat eigi bara að herða sultarólina, að það sé einu breiðu bökin í þjóðfélaginu, eina fólkið sem á ekki tilverurétt? Við vitum að það lifir enginn á 220.000 kr. útborgun sem þarf að borga leigu, borga mat, lyf. Það gengur ekki upp.