151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[19:15]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Rétt til þess að skilja við fæðingarorlofið vil ég segja að gagnvart þeim fjölskyldum sem eru á þeim stað að ná ekki að brúa bilið núna, vegna þess að sveitarfélögin hafa ekki öll teygt sig niður í 12 mánuðina, eru ríkisvaldið og núverandi ríkisstjórn, sem hv. þingmaður studdi eitt sinn, m.a. til þessara verka, þó búin að stíga gríðarlega stór og myndarleg skref í þessu máli. Hún er búin að stíga þau skref að við erum búin að lengja fæðingarorlofið. Hún er búin að stíga það skref að við erum búin að hækka greiðslur í fæðingarorlofi og hún er núna að stíga skref til að koma inn með kerfisbreytingar á fæðingarorlofinu sem koma munu til móts við ýmsar athugasemdir sem verið hafa á undanförnum árum. Það er ég alla vega mjög ánægður með. Við erum í rauninni búin að endurreisa fæðingarorlofskerfið, vil ég meina.

Þó að barnabæturnar séu á þessu málefnasviði þá eru þær í forsetaúrskurði á hendi fjármálaráðherra. Þannig að þó að þetta sé ein ríkisstjórn kemur textinn frá fjármálaráðuneytinu, textinn kemur frá fjármálaráðherranum sem kemur með málið þar inn. Þó að plaggið í heild sinni sé samþykkt af allri ríkisstjórninni hefur þetta verið hjá fjármálaráðuneytinu á undanförnum árum.

Hins vegar tek ég undir með hv. þingmanni að það kann að vera ástæða til þess að taka barnabótakerfið og stokka það upp með sama hætti og við erum núna búin að gera við fæðingarorlofskerfið, þannig að það taki betur utan um barnafjölskyldur. En það verkefni verður að bíða nýs kjörtímabils. Ég myndi glaður vilja vera sá ráðherra sem tæki það og barnabótakerfið með sama hætti og búið er að taka fæðingarorlofskerfið.