151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[19:31]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Íslenskt skólakerfi hefur unnið þrekvirki á tímum kórónuveirunnar. Atburðir síðustu mánaða hafa reynt verulega á styrk þess úrræðagóða starfsfólks sem hefur haldið skólanum gangandi á erfiðum tímum. Öllum ætti að vera ljóst að vellíðan nemenda, félagsleg virkni og velferð þeirra til lengri tíma þarf að vera í forgangi þegar við horfum fram á veginn til næstu ára. Víða um heim hafa börn ekki komist í skóla í hálft ár og margir óttast varanleg áhrif á samfélög um víða veröld. Velferð nemenda á öllum skólastigum verður því að vera í algerum forgangi hjá okkur sem sitjum hér á þingi.

Ég vil nefna að við höfum verið að gera heilmikið í þeim málaflokkum sem heyra undir mig. Við erum búin að hækka á milli ára til að bregðast við þeirri stöðu sem uppi er og er 11% hækkun til málaflokksins.

Virðulegur forseti. Menntastefna til ársins 2030 verður vegvísir menntakerfisins til framtíðar. Markmiðið með henni er að tryggja börnum og ungu fólki menntun sem er í fremstu röð og er framúrskarandi. Ríkisstjórnin mun fjármagna fjölþættar aðgerðir til að framfylgja menntastefnunni. Fyrst má nefna að framhaldsskólarnir og háskólarnir fá framlag sem nemur í heild rúmum 1 milljarði aukalega árið 2021 til að bregðast við stóraukinni aðsókn í menntakerfið.

Ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt að við höfum menntakerfið eins opið og raun ber vitni. Þetta er tími mikilla áskorana og ef við ætlum að láta samfélag okkar ganga upp og taka á móti þeim miklu breytingum sem eru að eiga sér stað þá tel ég að það sé vænlegast til árangurs fyrir okkar samfélag að menntakerfið sé opið og við styðjum við nemendur. Við styðjum líka við það fólk sem hefur í hyggju að breyta til og auka færni sína á íslenskum vinnumarkaði.

Ég vil líka nefna, virðulegur forseti, að hið efnahagslega áfall sem við erum að upplifa þessa dagana sýnir okkur svart á hvítu að við verðum að auka fjölbreytni og nýsköpun á öllum sviðum til að skapa ný störf. Í því sambandi er eitt helsta hagsmunamál þjóðarinnar að efla starfsnám, tækninám og iðnnám. Aðgerðaáætlun, unnin í víðtæku samráði, hefur verið hrundið af stað með það að markmiði að auka áhuga á starfs- og tæknimenntun og fjölga einstaklingum með slíka menntun á vinnumarkaðinum. Mikilvægt er að nemendur sem ljúka námi í verk- og iðngreinum fái viðurkenningu á menntun sinni á háskólastigi og geti þannig aukið við kunnáttu sína og fengið fjölbreyttari möguleika á vinnumarkaðnum.

Í grunnskólum verður einnig lögð aukin áhersla á verk-, tækni- og listgreinar til samræmis við aðalnámskrá.

Virðulegur forseti. Með víðtæku samráði og sátt í samfélaginu tóku gildi ný lög um menntun og hæfi kennara og skólastjórnenda sem munu styrkja kennarastarfið verulega þar sem kennari getur núna starfað á þremur skólastigum. Ráðist hefur verið í umfangsmiklar aðgerðir til að fjölga kennurum og fjármagn hefur verið veitt til að gera kennaranemum mögulegt að ljúka menntun sinni með launuðu starfsnámi. Þessi aðgerðaáætlun hefur skilað þeim árangri að aukning hefur verið um tugi prósenta í aðsókn í kennaranámið. Í upphafi þessa kjörtímabils var talað um að ein stærsta áskorunin væri hinn mikli kennaraskortur sem yrði árið 2032, en nú höfum við á ekki svo löngum tíma gjörbreytt þeirri stöðu. Það er mikið fagnaðarefni, enda segi ég: Kennarastarfið er mikilvægasta starf samfélagsins vegna þess að það leggur grunninn að öllum öðrum störfum í samfélaginu.

Ég vil líka nefna að Alþingi samþykkti þingsályktun um eflingu íslenskunnar sem felur í sér níu aðgerðir sem snúa að umbótum í menntakerfinu. Þar vil ég sérstaklega nefna vægi móðurmálskennslu sem verður aukin í grunnskólum landsins og miðar að því að bæta orðaforða og lesskilning.

Virðulegur forseti. Það er mjög ánægjulegt að sjá hvað við erum auka og gefa í í þessum málaflokki og það mun svo sannarlega verða til hagsbóta fyrir menntun og menningu í landinu.