151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[19:37]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í framhalds- og háskólanám. Ég tók eftir því á dögunum að Keilir og menntanet Suðurnesja fengu aukna fjármuni en menntanet Suðurnesja býður upp á nám og starfsúrræði fyrir nemendur í atvinnuleit. Mig langar að spyrja hvort ráðherra hafi hug á því að fara í slíka vegferð á fleiri stöðum á landinu í samvinnu við menntastofnanir þar. Og þar sem ég er komin hingað upp langar mig að nýta tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki lag núna að lagfæra orðalag sem notað er á vef háskólabrúar Keilis. Þar má lesa, með leyfi forseta:

„Háskólabrú Keilis býður upp á nám fyrir einstaklinga sem hafa ekki lokið stúdentsprófi og geta nemendur að námi loknu sótt um háskólanám hérlendis og erlendis. Keilir er eini skólinn sem býður upp á aðfaranám í samstarfi við Háskóla Íslands og gildir námið til inntöku í allar deildir HÍ.“

Ég hef þó fengið nokkrar fréttir af því að þegar til kastanna komi sé nemendum synjað um háskólanám og því sé það ekki alveg rétt sem fram kemur á vef skólans. Mig langar því að inna hæstv. ráðherra eftir því hvernig hún hyggst bæta úr þessu svo að nemendur geti gengið öruggir að þessum upplýsingum.