151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[19:38]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir mikinn áhuga og elju í þágu málaflokksins. Hv. þingmaður spurði um menntanetið og þær aðgerðir sem við erum að fara í á Suðurnesjum. Það var löngu tímabært og mikið fagnaðarefni því það er, eins og ég sagði hér í inngangserindi mínu, alveg ljóst að við munum mennta okkur í gegnum þetta ástand. Það er langfarsælast til lengri tíma litið.

Spurt er hvort við ætlum í frekara samstarf við fleiri aðila. Já, við höfum það í hyggju. Við ætlum að efla menntun um allt land, nýta tæknina, nýta fjarkennslu. Við vorum að tilkynna um aukið samstarf á Austurlandi þar sem við ætlum að auka tækninám og bjóða þar upp á háskólanám.

Hv. þingmaður spurði einnig um aðfaranámið og háskólabrúna á Keili og hvort við hefðum ekki í hyggju að bæta þetta þannig að það sé aukið aðgengi að fleiri háskólum en Háskóla Íslands. Jú, það er í vinnslu í ráðuneytinu og ég vonast til þess að búið sé að ganga frá því máli. Ég er sammála hv. þingmanni að það er mikið réttlætismál. Upplýsingagjöfin verður að endurspegla raunveruleikann og staðreyndir málsins. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er gríðarlega mikilvægt að við lögum þetta og mér skilst að það sé komið í góðan farveg.