151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[19:43]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugann á fjölmiðlum þessa lands. Ég verð stundum svolítið döpur að heyra málflutninginn sem hv. þingmaður hefur ætíð uppi um Ríkisútvarpið. Það var sett á laggirnar í tíð Framsóknarflokksins árið 1930 og hefur fylgt þjóðinni allan þennan tíma. Ríkisútvarpið gegnir auðvitað mjög mikilvægu hlutverki í því að veita sanngjarnan fréttaflutning og miðla menningu til okkar og hefur staðið mjög framarlega í því að búa til sjónvarpsþætti og annað slíkt. Ríkisútvarpið er að gera marga góða hluti.

Ég get hins vegar tekið undir það með hv. þingmanni að auðvitað skiptir alltaf máli að menn séu á tánum varðandi rekstur og annað slíkt. Hv. þingmaður spyr hvort komið hafi til aukinnar hagræðingarkröfu einungis á Ríkisútvarpið. Svarið er: Nei, við höfum ekki viljað gera það á þessum tíma vegna þess að sú aðgerðaáætlun sem ríkisstjórnin stendur fyrir þessa dagana er í anda Keynes, þ.e. við vitum að við þurfum að styðja verulega við allt samfélagið, menntun, menningu og fjárfestingar, til þess að koma okkur í gegnum þessa stöðu. Það erum við að gera og við stöndum líka með Ríkisútvarpinu hvað það varðar.

Hv. þingmaður spurði út í styrki til einkarekinna fjölmiðla. Það fyrirkomulag er tekið upp að norrænni fyrirmynd og allt sem við erum að gera í því sambandi er mjög gagnsætt. Gefin var út reglugerð sem tekur mið af frumvarpinu sem var hér til umfjöllunar. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þetta var ekki óumdeilt mál, það er nú oft þannig í stjórnmálunum, en hins vegar finnst mér mjög mikilvægt að við náum að styrkja umgjörð fjölmiðla í landinu betur en okkur hefur tekist hingað til.