151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[19:47]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það skiptir mjög miklu máli að framlögum til lista og menningar sé haldið á þeim stað sem þau eru núna á milli áranna 2020 og 2021. Ég tek undir með hv. þingmanni að við þurfum, þegar við förum aftur yfir fjármálaáætlunina, að endurskoða þessa þætti. Það er sannfæring mín að við verðum, til að koma okkur í gegnum þetta, eins og ég nefndi, að halda utan um samfélagið okkar og það ætlum við að gera.

Ég vil upplýsa hv. þingmann um það að við erum að fara í umfangsmiklar aðgerðir til að styðja við listafólk landsins. Við höfum verið að fjölga verulega á listamannalaunum. Við ætlum í þessari viku að kynna frumvarp þar sem stutt verður sérstaklega við sjálfstætt starfandi listamenn. Sér í lagi eru þær aðgerðir hugsaðar fyrir þá sem starfa við tónlist og eru í sviðslistum. Tekjufall margra þeirra er algjört og við viðurkennum það og það er sjálfsagt að horfast í augu við það. Við höfum líka séð að kerfin okkar ná ekki nægilega vel utan um allt listafólkið okkar og það á skilið að við förum í þessar aðgerðir. Við munum endurskoða ríkisfjármálaáætlun áður en kjörtímabilinu lýkur og ég hef hug á því að skoða þennan þátt frekar.