151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[19:52]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Eins og hv. þingmaður þekkir líklega þróast framlög til Ríkisútvarpsins í takt við þróun kennitalna greiðenda útvarpsgjalds. Þeim kennitölum hefur verið að fækka vegna þess efnahagsáfalls sem við erum að fást við núna. Að sama skapi má segja að þegar vel hefur gengið þá hafa tekjur aukist verulega. Svo minnka þær núna vegna þessarar þróunar.

Við erum auðvitað á milli umræðna í fjárlagafrumvarpinu en ég get upplýst hv. þingmann um að Ríkisútvarpið hefur verið að taka eitt og annað að sér sem hefur leitt til aukins kostnaðar vegna kórónuveirunnar. Það er til umfjöllunar í ráðuneytinu. Gerð þjónustusamnings hefur dregist og það er m.a. vegna þess ástands sem er uppi. Mögulega þarf að gera breytingar á samningnum en hann er á lokametrunum. Í honum verður lögð áhersla á aukna menntun.

Ég vil líka nefna hér í umræðunni að Ríkisútvarpið hefur verið að gefa mikið í varðandi fræðsluhlutverk sitt og sérstaklega á þessum tímum hefur það verið að miðla fræðslu til barna og ungs fólks í ljósi ástandsins. Það er mjög þakkarvert. Það eru því einhverjar nýjungar líka í þjónustusamningnum sem taka svolítið mið af ástandinu og hvernig það horfir svo við til framtíðar. Ég get líka upplýst hv. þingmann um að ég tel mjög mikilvægt að við séum með öflugt ríkisútvarp.