151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[19:56]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil víkja að þeim aðgerðum sem við erum að fara í til að styðja mun betur við — í raun segi ég ekki styðja við heldur bara þakka fyrir okkur, þjóðin þakkar fyrir sig með því að koma til móts við þann hóp sem er að upplifa gríðarlegt tekjufall. Við erum að ganga frá frumvarpi og ég skal bara upplýsa nákvæmlega hvað hefur verið að gerast varðandi það. Við ætluðum að setja saman sjálfstætt starfandi listamenn og þá sem eru í rekstri, til að mynda þá sem eru að leigja tónlistarbúnað og ljós og annað slíkt. En við höfum ákveðið að aðskilja þá hópa vegna þess að þá getum við fyrr komið með aðstoð til sjálfstætt starfandi listamanna sem hin úrræðin ná ekki utan um. Svo verða almennar aðgerðir fyrir þau fyrirtæki sem upplifa þetta mikla tekjufall. Upphaflega ætlum við að taka það saman að danskri fyrirmynd en höfum komist að því að skynsamlegra er að gera þetta með þessum hætti. Ég vonast til þess að leggja fram frumvarp í ríkisstjórn aftur, af því að við höfum verið með þennan aðskilnað, sem mun leiða til aukins stuðnings. Ég vil frekar taka lengri tíma í það þannig að við séum nokkuð viss um að það sé góð aðgerð og við þurfum ekki að koma aftur eftir einhverja mánuði.

Við höfum unnið þetta í mjög góðu samstarfi við allan geirann. Það kom út afskaplega góð skýrsla um tónlistina á Covid-tímum sem við höfum notað sem grunn. Þar var mælt með danskri aðferð en við tókum eftir því að það gæti verið betra að við fengjumst sérstaklega við fyrirtækin í almennri aðgerð og þetta yrði sértækur stuðningur. Þetta verður býsna gott og ég vil frekar, eins og ég segi, að það séu einhverjar tafir en við getum þá sagt: Þetta er bara býsna gott mál.