151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[19:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Í fjármálaáætlun er talað um að frá fjárlögum 2020 til fjárlagafrumvarps 2021, svona til að hækka upphæðina, aukist útgjöld til mennta- og menningarmála um tæpa 6 milljarða, ef öllu er steypt saman. Þar af nemur framlag til að mæta fjölgun nemenda á framhalds- og háskólastigi í kjölfar aukins atvinnuleysis 1 milljarði. Hækkun á framlagi til Menntasjóðs námsmanna og Lánasjóðs íslenskra námsmanna og ýmislegt svoleiðis er talið upp, sem og framlög til háskólastigsins til að gera það sambærilegt við önnur Norðurlönd árið 2025. Það er upptalningin í fjármálaáætluninni. En ég skil þetta ekki alveg því að ég sé nánast enga breytingu á fjármögnun framhaldsskólanna. Fjárhæðin er 200 millj. kr. hærri 2025 en 2021. Háskólastigið er vissulega með 3,5 milljörðum hærri upphæð í lok fjármálaáætlunar en ég sé ekkert sem útskýrir þá hækkun nema bara fjölgun nemenda eða þá framkvæmdir við hús heilbrigðisvísinda, en ekki endurskoðun á reiknilíkaninu, sem dæmi, sem er það sem þetta snýst allt um þegar allt kemur til alls.

Ég skil ekki hvaða hluti fjármagnsins, sem er farið yfir í fjármálaáætlun, fer í eflingu menntunar til að gera okkur sambærileg við nágrannaþjóðir. Það finnst hvergi í áætluninni.

Að lokum er einu orði minnst á stafrænar smiðjur í fjármálaáætlun. Þar eru framhaldsskólar hvattir til þess að nota þær. Ekkert um eflingu og uppbyggingu til að allir, sem Alþingi samþykkti að ættu að geta haft aðgang að slíkum smiðjum, fái aðgang að þeim. Fékk ráðherra ekkert fjármagn í stafrænu smiðjurnar? Hvað verður þá um þátt Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands sem tekur þátt í rekstri þeirra stafrænu smiðja sem þegar eru í rekstri? Ég skil ekki alveg hvað stjórnvöld eiga eiginlega við þegar þau segja að markmið þeirra sé að efla menntun á bæði framhalds- og háskólastigi. Stjórnvöld eru loksins búin að laga stórkostlega gallað lánakerfi en þar með er það eiginlega upp talið.