151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:01]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Á þessu kjörtímabili höfum við uppfyllt það sem stendur í stjórnarsáttmálanum er varðar fjármögnun til háskólastigsins, þ.e. við erum komin yfir OECD-meðaltalið. Það var eitt af því sem við sögðum og við sögðum líka að við myndum nálgast Norðurlöndin mjög hratt. Við sögðum líka að við myndum fara í miklar kerfisbreytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna sem við settum yfir í Menntasjóð námsmanna og þarna á sér stað algjör kerfisbreyting og núna eru námsmenn með allt önnur kjör með þeirri breytingu.

Ég vil líka nefna það, ef hv. þingmaður skoðar til að mynda málefnasvið 22 og hvað við erum að gera varðandi það að efla alla umgjörð er tengist kennaramenntun og kennurum og hvernig við ætlum að styrkja stoðirnar á leik- og grunnskólastigi, að við erum að tala um algera byltingu í menntamálum. Við höfum einnig aukið verulega framlög á hvern og einn einasta framhaldsskólanema vegna þess að þegar bóklega námið var stytt um eitt ár þá breyttum við ekki fjárframlögum inn á framhaldsskólastigið heldur gáfum við í. Þannig að það sé alveg á hreinu: Hér er búið að styðja verulega við framhaldsskólastigið og háskólastigið.

Hv. þingmaður spurði einnig út í stafrænar smiðjur. Við erum hjartanlega sammála um mikilvægi þeirra. Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og ég erum núna að fara að gera samninga við allar stafrænu smiðjurnar, tengja þær betur inn í framhaldsskólastigið, þannig að við sameinum krafta okkar til að styðja sérstaklega við þær. Við erum að tala um nýja samninga alls staðar og við erum að lyfta þeim verulega upp. Við hefðum kannski getað sett það líka í þetta ágæta rit, mér þykir leitt að það hafi ekki komið þar inn. En hins vegar lítur sú stefnumótun mjög vel út.