151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:07]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir svörin en ég hefði alveg þegið að fá aðeins skýrara svar varðandi það hvort hæstv. ráðherra og ráðuneyti hennar sé hlynnt því að Háskólinn á Akureyri fái viðurkenningu sem tækniháskóli, sem háskóli með tækninám. Það er að mínu mati algerlega lykilatriði hér og svo margt sem mælir með því. Ef við horfum á stöðuna er þar á bak við einn öflugasti verkmenntaskóli landsins þar sem aðsókn í greinar er góð, sem við þurfum virkilega á að halda í þessari fjórðu iðnbyltingu. Sama má segja um skólann í Neskaupstað og á Sauðárkróki. Það er því öflugt upptökusvæði á bak við það að nám á háskólastigi í tæknigreinunum komi til á þessum hluta. Austurland sárvantar betra aðgengi að námi á háskólastigi, auk þess að fá auðvitað öflugra starf á sviði rannsókna og nýsköpunar. Ef við horfum á landshlutana er það Austurland sem dregur stysta stráið af öllum í landinu hvað þetta snertir, þannig að þar þarf að bæta úr. Og þetta myndi sömuleiðis falla mjög vel að áherslum Háskólans á Akureyri hvað varðar sjávarútvegsfræðin sem hefur auðvitað verið flaggskip þess skóla. Þar er einn öflugasti skipaiðnaður og skipaþjónusta á Íslandi þannig að það er mjög margt sem mælir með því, líka samstarf atvinnulífs og skóla, að drífa í þessu á Akureyri. Ég eggja hæstv. ráðherra lögeggjan að veita þessu máli brautargengi.

En það eru líka litlir bræður í hópnum og þess vegna leyfi ég mér að spyrja út í orðalag í fjárlagafrumvarpinu sem snýr að lýðskólunum á Flateyri og á Seyðisfirði. Þar er sú breyting boðuð að í staðinn fyrir fasta eyrnamerkta fjárveitingu, upp á 15 milljónir til hvors skóla, verði framlög til þeirra fjármögnuð innan ramma málaflokksins. Gott og vel ef peningarnir skila sér.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Má ekki eftir sem áður treysta því að skólarnir fái sín framlög og að þeir fái samning og helst til meira en eins árs þannig að hægt sé að byggja þá skínandi góðu starfsemi áfram, sem þarna hefur verið að þróast undanfarin ár, bæði á Seyðisfirði og á Flateyri?