151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:09]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Jú, ég er mjög spennt fyrir því að Háskólinn á Akureyri fái viðurkenningu sem tækniháskóli og hann taki þátt í uppbyggingunni á Austurlandi. Undirbúningurinn sem er að fara af stað núna miðar að því að Háskólinn á Akureyri öðlist þessa viðurkenningu og því fyrr sem það gerist því betra svo að við getum sett þetta nám af stað. Það er alveg rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að auðvitað þarf að styrkja betur við allt tækninám og háskólanám á Austurlandi. Þetta er fyrsti vísirinn að því og það er mikið fagnaðarefni.

Að auki spurði hv. þingmaður út í fjármögnun á lýðskólum. Ég vil minna á það að á síðasta þingi voru í fyrsta sinn samþykkt lög um lýðskóla og að sjálfsögðu fylgjum við eftir fjármögnun þessara skóla og við gerum það innan þess ramma sem við höfum. Það kann að virka villandi hvernig framsetningin er. En það er alveg ljóst að ef við ætlum að vera sterkari eða reyna að auka færni og hæfni í þessu ástandi þarf að verja auknum fjármunum til menntunar og lýðskólarnir eru þar alveg kjörnir til þess að styðja við fjölbreytileika menntakerfisins.