151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:11]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Herra forseti. Mig langar að ræða þá staðreynd að við okkur blasir að atvinnumarkaðurinn er allt að því að lokast ungu fólki. Þetta er í sjálfu sér sama stef og svipað og við sjáum erlendis þar sem yngra fólk er líklegra til að missa vinnuna einfaldlega vegna þess að það starfar í þannig greinum, greinum sem hafa orðið illa úti í kreppunni, eins og á veitingahúsum, hótelum o.s.frv. Það eru þrefalt fleiri undir fertugu sem voru t.d. atvinnulausir í þeim hópi en yfir fimmtugu á tímabilinu mars til ágúst og munurinn er enn dramatískari þegar við skoðuðum aldurshópinn fólk undir þrítugu og berum saman við sextuga og eldri.

Mig langar að ræða við ráðherrann að við þessar aðstæður og þegar litið er á þennan hóp þá er menntakerfið sterkt verkfæri sem stjórnvöld eiga og geta beitt í því sambandi, þ.e. að þora að veðja á menntun, þora að fjárfesta í menntun og krafti og taka stór skref strax í þágu menntunar. Sú leið gefur ungu fólki tækifæri til þess að koma sterkara út á vinnumarkaðinn eftir á og mér fannst jákvætt að heyra sjónarmið menntamálaráðherra í því sambandi og hugmyndir hennar þar um. Þessa reynslu höfum við þegar úr fyrri kreppum og hérna erum við sannarlega að tala um arðbærar fjárfestingar, arðbærar fjárfestingar í fólki. En ég velti fyrir mér lánasjóði menntamálaráðherra eða Menntasjóði í þessu sambandi. Þar urðu margar jákvæðar og góðar breytingar en margar þeirra snúa að fólki sem þegar hefur lokið námi. Markvissari aðgerðir akkúrat núna hefðu falist í því að við hefðum stutt betur við stúdenta á meðan þeir eru stúdentar. Sér ráðherra fyrir sér að hægt verði að opna háskólana betur í ljósi þeirra aðstæðna sem eru núna með því að tryggja afkomu stúdenta með einhverjum hætti umfram það sem löggjöf okkar í dag gerir ráð fyrir?