151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:13]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað hárrétt að það hefur átt sér stað algjör kerfisbreyting er varðar allt sem tengist Menntasjóðnum og kjörum námsmanna, sér í lagi til framtíðar. Hv. þingmaður er líklega að spyrja: Ætlum við að gera eitthvað til þess að styðja betur við núverandi framfærslu? Já, við erum með það til skoðunar. En ég vil líka minna hv. þingmann á það að síðastliðið sumar fórum við í stórátak í því að fjölga sumarstörfum til að auka reynslu þeirra ungmenna sem höfðu ekki vinnu. Niðurstaðan varð sú að mikið af þeim störfum sem búin voru til gengu ekki út. Það sýndi að í þessu tilfelli gerðum við meira frekar en minna og það voru alveg ótrúlega mörg spennandi verkefni sem komu út úr því.

Ég vil líka minna hv. þingmann á að við höfum stóraukið framlög til Nýsköpunarsjóðs námsmanna og þar eru alveg ótrúlegir sprotar að fæðast. Eins og hv. þingmaður gerir sér grein fyrir ætlum við að halda þeirri aukningu áfram. Ég legg verulega áherslu á þetta líka inn í næsta sumar þannig að námsmenn átti sig á því að það verða spennandi tækifæri þarna úti yfir sumartímann. Ég er sammála hv. þingmanni að það er algjört kappsmál að fjárfesta í menntun, en það sem við erum líka að gera núna með því að fjárfesta svona mikið í nýsköpun þá við erum auðvitað að veðja á þá framtíð að búa til störf í þeim geira þar sem unga fólkið okkar vill vera. Það vill þannig til að þau þjóðríki eða fylki sem hafa fjárfest í menntun og nýsköpun eru líklegust til þess að búa til flest störfin til framtíðar og það er áætlun ríkisstjórnarinnar.