151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:15]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir greinargóð svör. Hún skildi spurningu mína rétt, ég var að velta fyrir mér afkomu þess stækkandi hóps sem leitar inn í háskólana núna og hvort það sé stefna ríkisstjórnarinnar að opna þetta háskólasamfélag með markvissum hætti þannig að það verði raunhæfur valkostur fyrir fólk að leita í nám. Spurningin laut kannski í framhaldinu að því hvort ríkisstjórnin, sem ég heyrði raunar menntamálaráðherra lýsa, ætli sér að veðja á menntun sem leið út úr kreppunni, bæði til lengri tíma og skemmri, og hvernig við ætlum að nota menntakerfið til að bregðast við því ástandi sem er uppi núna og beinlínis að hvetja þennan stóra hóp ungs fólks til að leita í nám og að við förum í það samhliða að byggja upp sterkara og fjölbreyttara atvinnulíf til lengri tíma litið.

Það er mikið talað um nýsköpun og mér hefur fundist sérstakt og umhugsunarvert að ekki sé meira rætt um menntun samhliða því pólitíska samtali, að við séum ekki að ræða um þetta sem þríþætta stoð; menntun, rannsóknir og nýsköpun. Ef við erum að tala um innviðauppbyggingu þá finnst mér blasa við að í því hljóti að felast t.d. að stórauka fjárfestingu í menntun. Það er arðbær fjárfesting til frambúðar og framtíðar. Mér hefur fundist vanta aðeins upp á það af hálfu stjórnarinnar að rætt sé um menntun í samhengi við nýsköpun, menntun í samhengi við atvinnusköpun, menntun og rannsóknir, sem hljóta sem framtíðarstef að gegna sama hlutverki.

Næsta spurning væri þá um framlög til framhaldsskólastigsins og háskólastigsins. Þau eru að aukast en mér sýnist að aukningin sé fremur lítil með tilliti til aðstæðna, þ.e. ef maður skoðar hversu mikil hún er umfram það að mæta bara fjölgun nemenda. (Forseti hringir.) Sér menntamálaráðherra fyrir sér við þessar aðstæður, þegar atvinnuleysistölur eru að keyrast upp nokkuð dramatískt, (Forseti hringir.) að endurskoða megi þær tölur eða forsendur?