151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:18]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að þær aukningar sem eiga sér stað núna, bæði í fjárlagafrumvarpinu og í ríkisfjármálaáætluninni, miða að því að fjárfesta í menntun. Við höfum líka sagt að ef við þurfum að bæta í, af því að það er umframeftirspurn eftir nemendaplássum, þá gerum við það. Við skipuleggjum í raun og veru fjárlagafrumvarpið þannig að það fer eftir eftirspurn hjá hverjum og einum skóla hvernig það þróast og við erum með ákveðinn sveigjanleika. En það er alveg ljóst og við höfum sagt það að við erum að tengja menntun við rannsóknir, menntun við nýsköpun og menntun við framþróun samfélagsins. Alveg á fyrstu dögum þessarar ríkisstjórnar fórum við að skoða hvar væri færnimisræmi á vinnumarkaðnum. Það kemur í ljós að það vantar mikið af tæknimenntuðu fólki. Það vantar mikið af fólki með ákveðið verknám og við höfum verið að forgangsraða í þágu þess og til að mynda kynnt átakið Nám er tækifæri, þannig að þeir sem hafa misst vinnuna geti komið inn í menntakerfið. Ég get líka nefnt að við vinnum hreinlega mjög markvisst með umsóknir, þ.e. þær umsóknir sem var ekki ljóst að kæmust strax að. Við fórum yfir það alveg markvisst núna í sumar að koma öllum sem voru að sækja um nám í þá skóla sem þeir höfðu áhuga á að fara í, að því gefnu að viðkomandi aðilar uppfylltu þær kröfur sem ætlast er til að þeir geri. Við erum líka að auka sveigjanleika. Ég er með frumvarp á þingmálaskránni þess efnis að þeir sem hafa lokið sveinsprófi hafi aðgengi að háskólamenntun, kjósi þeir að sækja sér hana. Við erum því í mikilli nýsköpun í menntakerfinu.