151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:20]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Er framtíðarmenntastefnan á réttri leið? Ég efast um það að því leyti sem ég hef mestar áhyggjur af, en það er sú gjá sem er að myndast á milli stúlkna og drengja í menntakerfinu, á kostnað drengja. Þá hljótum við að spyrja okkur að því hvað sé að og hvað sé í gangi. Ég myndi vilja spyrja hæstv. menntamálaráðherra um framtíðarstefnuna og hvernig sjá eigi til þess að drengir og stúlkur standi jafnfætis í menntakerfinu. Eins og staðan er í dag er langt því frá og það þarf líka að taka á lesblindu. Orðrétt segir í fjármálaáætlun, með leyfi forseta:

„Mikilvægur liður í að styrka íslenskukennslu á grunnskólastigi er að auka hlutfall íslensku í viðmiðunarstundaskrá í 1.–7. bekk grunnskóla og áformað er að sú breyting taki gildi frá og með skólaárinu 2020–2021. Ekki verður fjölgað vikulegum mínútufjölda en val skóla til ráðstöfunar kennslutíma verður nýtt í íslensku, til að efla læsi og ritun.“

Þess vegna spyr ég: Hvað þarf að koma til svo að ráðherra telji skynsamlegt að fjölga mínútum í íslenskukennslu? Í ljósi þess hve slæm menning hefur verið ætti þá ekki að grípa til frekari aðgerða og það strax?