151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:22]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það er gríðarlega mikilvægt að allir hafi sama aðgengi að menntun og sömu tækifæri innan menntakerfisins. Því er það atriði sem hv. þingmaður nefnir okkur öllum mjög hugleikið vegna þess að við sjáum ákveðna breytingu sem hefur verið að eiga sér stað á síðustu 15 til 20 árum. Hún er ekki aðeins að eiga sér stað bara á Íslandi heldur er þetta alþjóðleg þróun. Hvernig ætlum við að bregðast við? Ég ætla að nefna nokkra þætti sem eru listaðir undir málefnasviði 22. Það er í fyrsta lagi að halda áfram að styrkja lestrarfærni grunnskólanema og ein lykilstoðin í nýrri menntastefnu er að huga verði að því hvernig við styrkjum lestrarfærni drengja svo að þeir séu á sama stað og stúlkur. Það er alveg ljóst að við þurfum að gera betur.

Ég ætla að nefna nokkra þætti í menntaumbótum sem áætlun er um. Í fyrsta lagi erum við að setja á laggirnar svokallað skólaþróunarteymi sem miðar að því að styrkja þessa grunnstoð í öllu menntakerfinu. Í öðru lagi ætlum við að auka í menntarannsóknir, hreinlega að spyrja okkur: Af hverju er þessi munur? Við vitum að hluta til af hverju hann er, en við þurfum að fá betri rannsóknir á því og ekki bara betri rannsóknir heldur þurfum við að vita hvernig við ætlum að bæta úr. Við ætlum að fara í auknar menntarannsóknir sem miða sérstaklega að því. Eins erum við að styrkja stöðumat og námsmat til að sjá vandann fyrr og nota snemmtæka íhlutun. Við sjáum þessa hluti miklu fyrr núna, jafnvel í fyrsta bekk, að þarna er orðinn talsverður munur, (Forseti hringir.) og við verðum að veita aðstoðina sem nauðsynleg er í stað þess að farið sé að huga að því á framhaldsskólastigi (Forseti hringir.) vegna þess að það vantar upp á lestrarfærni.