151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:24]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir svörin og ég held að við séum alveg sammála að þessu leyti. Okkur ber að sjá til þess að drengir standi á sama grunni og við þurfum líka að hugsa um þessa hluti á framhaldsskólastiginu. Það var verið að tala um tækni- og verkkunnáttu, og þetta þarf eiginlega að byrja fyrr. Það liggur fyrir að áhugi drengja er á tölvusviði.

Við höfum búið til hvatakerfi fyrir íþróttastyrki, til að hvetja til íþróttaiðkunar og annað. Í ljósi þess hve slæm áhrif Covid hefur haft á tekjur tónlistarfólks telur ráðherra að auka mætti fjárhagslegan styrk ríkissjóðs til tónlistarfræðslu? Þannig mætti eflaust tryggja ýmsu tónlistarfólki atvinnu, auk þess sem tónlist hefur jákvæð áhrif á þroska barna. Myndi ráðherra til að mynda styðja tillögur um sérstakt tónlistarkennslukort sem foreldrar gætu nýtt til tónlistarfræðslu barna sinna, rétt eins og nú er gert með frístundakort í íþróttum? Það gæti verið ein leið til að efla bæði drengi og stúlkur í tónlist. Ég held að við séum komin á þann stað að við verðum að finna ástæður þess að drengir flosna upp úr skóla og grípa inn í og sjá til þess að við finnum aðferð til þess að þeir geti haldið námi áfram og komist annaðhvort í verknám eða í háskóla.